28 september 2005

Lata Gréta lítur dagsins ljós

 

Í skógarjaðrinum stóð gamall, stráþakinn kofagarmur. Allar rúður voru brotnar í honum, hurðin hékk varla á hjörunum og í girðingar stað voru þistlar og brenninetlur. Í þessum kofa bjó telpukorn með Kisu sinni. Nágrannarnir kölluð telpuna lötu og leiðinlegu Grétu. Þannig hefst sagan sem fylgt hefur mér frá blautu barnsbeini. Þetta er tékkneskt ævintýri ritað af Emil Ludvik og kom út í íslenskri þýðingu Hallfreðar Arnar Eiríkssonar árið 1960. Bókin er skemmtilega myndskreytt og myndir hér á bloggsíðunni eru úr þessari bók. Ég held ég hafi fengið 1. bókina þegar ég var á 3. ári, en áður en yfir lauk var ég búin að fá þrjú eintök því það varð að endurnýja bókina reglulega svo miklu ástfóstri tók ég við hana.

Ég á eitt og annað sameiginlegt með Lötu Grétu, ég bý t.d. með henni kisu minni og ég ætlaði að laga þakið á húsinu mínu í sumar en kom því ekki í verk. En það kemur sumar eftir þetta sumar og ég vona að kisa hafi sig í að hjálpa mér við að mála þakið næsta sumar.

Öll tæknivinna við uppsetningu þessarar bloggsíðu var í höndum Tótu í Tölvusmiðjunni og hún þarf örugglega að halda í höndina á mér fram eftir vetri ef ég á að koma einhverju efni inn á síðuna. Tóta er hæfileikarík kona og býr m.a. til rosalega góðan forrétt, sítrónumarineraðan silung. En í Tölvusmiðjunni er fleira hæfileikaríkt fólk. Þar er t.d. hann Bjarni granni minn sem bakar heimsins bestu súkkulaðiköku sem hefur fengið nafnið Góða nágrannakakan. Einhvern tímann skal ég setja uppskriftina hér inn á síðuna. (þessi færsla er í boði Tölvusmiðjunnar)

 

Speki dagsins: Áður en þú finnur prinsinn, þarftu að kyssa heilt helvíti af froskum.

 

Lata Gréta – farin að hvíla sig.

|