29 september 2005

Reykjavík ó Reykjavík

Ég hef verið að brjóta heilann um einn umdeildasta blett á jarðríki, þ.e.a.s. Vatnsmýrina í Reykjavík. Eins gott að hryðjuverkasamtök úti í heimi fylgist ekki með íslenskum fjölmiðlum, menn þar gætu fengið þá hugmynd að þarna væri nafli hins vestræna heims.

En hvað um það, ég var að hugsa um hvort borgarstjórinn í Reykjavík hafi aldrei séð borgina úr lofti. Ef maður situr í flugvél sem tekur á loft frá Reykjavíkurflugvelli á góðviðrisdegi og tekur fyrst stefnuna á haf út en snýr svo til baka og flýgur yfir borginni þá virðist manni þessi Vatnsmýri engan veginn vera miðja Reykjavíkur. Flugvöllurinn virðist, séður úr lofti, vera næstum á endimörkum borgarinnar. Skrýtinn staður til að búa til miðbæjarkjarna.

Að vísu var það þannig þegar Reykjavík varð höfuðborg Íslands að Austurvöllur og Kvosin voru nærri því að vera í miðjum bænum, en hafi menn ekki  tekið eftir því skal á það bent að það hafa byggst heilu hverfin í austurátt frá Vatnsmýrinni og nú virðist manni að aðal byggðin sé austan Kringlumýrarbrautar og maður sér fyrir sér að flestir Reykvíkingar muni búa þar.

Hvað á allt þetta fólk að vera að valsa um í Vatnsmýrinni? Ég sé fyrir mér endalausa umferðarhnúta þegar allt þetta fólk ekur heiman frá sér til að njóta þess að spóka sig í nýja miðbænum sínum. Alla vega hlýtur að eiga vera fólk í þessum miðbæ ef það á að vera eitthvað líf í honum.

Ef maður horfir á Reykjavík úr lofti virðist Laugardalurinn vera nær miðju, svo ekki sé talað um Elliðaárdalinn. Úr því að Reykvíkingar vilja breyta til, hvernig væri bara að flytja Jón Sigurðsson af Austurvelli og koma honum fyrir á Geirsnefinu við Elliðaárnar? Ef Geirsnefið er ekki nógu stórt er örugglega ekkert meira mál að stækka það en að moka Reykjavíkurflugvelli í burtu. Sjáið bara fyrir ykkur íbúa fjallahéraðanna í Reykjavík skunda í 17. júní göngu niður Elliðaárdalinn og Ártúnsbrekkuna með glaðværa skáta í fararbroddi? Það væri flott. Svo er stutt í Skeifuna og allar verslanirnar þar. Það væri hægt að búa til göngugötu úr endanum á gömlu Suðurlandsbrautinni frá Geirsnefi niður í Skeifu og þar gætu verið alls konar gleðihús, verslanir og hugguleg kaffihús.

 

Þakka öllum sem heilsuðu upp á Lötu Grétu í gær.

 

Speki dagsins: Lífið er tækifæri, gríptu það.

 

|