28 febrúar 2008

Litli ferðaklúbburinn

Í gær var fundur í Litla ferðaklúbbnum.
Nína og Maggi komu í Skógarkot, ég bakaði skjóttar vöfflur, þeytti rjóma og kveikti upp í kamínunni. Voða huggulegt.
Svo var farið yfir ferðatilhögun helgarinnar í Kverkfjöll. Búnað og nesti, ég vildi auðvitað bara tala um nestið.
Nína er ekki kisukona þó henni semji vel við primadonnuna Kolgrímu, en kjáninn hún Klófríður var að hrekkja Nínu með því að læsa í hana klónum og láta öllum illum gestalátum. Kolgríma kann sig þegar það koma gestir.
En nú er bara að leggjast á bæn og biðja veðurguðina um skaplegt veður til fjalla um helgina. Spáin er ekki góð en ég held að hún sé samt að skána. Svo er það nú bara þannig að þeir þarna í efra hlusta ekki á veðurspá. Ég held að við eigum eftir að fá skaplegt veður, nú ef ekki, þá bara verð ég með bók að lesa.
Það verða nokkrir tugir manna á ferð á mörgum jeppum og ég er búin að frétta af nokkrum björgunarsveitarmönnum sem verða með í för, þannig að það eru þá hæg heimatökin ef við þurfum á björgunarsveitinni að halda.

|