19 júlí 2008

Kattarskömm

Ótrúlega getur hún Kolgríma verið óþæg.
Hún er svo mikil veiðikló og veit fátt skemmtilegra en að veiða fugla. Ég veit ekki hvað hún hefur stóran kvóta eða hvort hún hafi yfir höfuð fengið útgefið veiðileyfi.
Alla vega leiðist mér þegar hún er að draga heim dauða fugla, svo ekki sé talað um þegar hún dregur þá heim hálfdauða.
Í morgun var hún búin að klófesta einn en missti hann. Áðan var hún nautnaleg úti á palli að smjatta á þrastarunga.
Ég veit ekki hvernig ég á að fá hana ofan af þessu háttarlagi. Bjallan gerir ekkert gagn.
Jæja, kannski ég eldi mér bara kjúkling í kvöld og hætti að spá í þessa veiðigleði Kolgrímu fuglabana Högnadóttur.

|