15 nóvember 2008

Kreppunni úthýst

Í kvöld verður kreppunni úthýst úr Skógarkoti.
Ég á von á vinum og vandamönnum til að fagna með mér 50 ára afmælinu. Dætur mínar og tengdasynir eru komin austur, öll systkini mín eru á svæðinu og æskuvinkonurnar úr Kópavoginum koma með hádegisvélinni.
Maggi er búinn að snúast eins og skopparakringla fyrir mig síðustu dagana í undirbúningi og garðhústjaldið sem Þórhallur bróðir reisti á pallinum hefur staðist veður og vind alla vikuna.
Malarvinnslugjaldþrotið setur að vísu strik í reikninginn því það er óvíst hvernig verður með tónlistarmennina í kvöld. Einn fór á sjó þegar hann missti vinnuna og hinir eru á einhverju flandri í atvinnuleit.
En það kemur í ljós eftir hádegi hverni tónlistamálin þróast.
Það er allt tilbúið fyrir kvöldið. Mirek tengdasonur minn fer í eldamennskuna þegar hann vaknar, en ég ætla að breiða sængina aftur yfir mig og kúra fram eftir morgni.
Æi, það er ágætt að hafa tilefni til að gera sér glaðan dag og eiga góðan vinafund á þessum síðustu og verstu tímum.
En það verður bannað að tala um efnahagsmál þjóðarinnar í Skógarkoti í kvöld.

|