17 febrúar 2009

Ég er stolt af þér Nína!

Jónína Rós í 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi!
Þetta líst mér vel á. Jafnvel þótt ég hafi nú aldrei verið Samfylkingarkona þá veit ég að hún Nína hefur krafta, kjark og þor sem þarf til að vinna landi og þjóð til hagsældar á Alþingi.
Samt verð ég að viðurkenna að ég er svolítið eigingjörn og vil helst að hún noti krafta sína áfram í bæjarstjórninni á Fljótsdalshéraði því okkur veitir sannarlega ekki af góðu fólki heima í héraði.
Það er oft kvartað yfir misjöfnu vægi atkvæða landsbyggðarmanna annars vegar og höfuðborgarbúa hins vegar. Það væri fróðlegt að taka það saman hversu margir Alþingismenn eru í raun landsbyggðarþingmenn því það hefur verið lenska að menn af höfuðborgarsvæðinu bjóði sig fram á listum úti á landi, e.t.v. af því að þeir búast við minni baráttu um öruggu sætin þar en fyrir sunnan. Fara svona bakdyramegin inn á þing.
Fjölmiðlarnir eru langt því frá að hafa staðið sig fyrir bankahrunið. Þeir eiga líka sinn þátt í því hvernig fór. Þeir mærðu útrásarvíkingana og slógu ryki í augu landsmanna, þeir brugðust þegar þeir áttu að standa vaktina og fylgjast með hvað var að gerast. Í stað þess að benda okkur á að keisarinn væri nakinn dásömuðu þeir klæði hans.
Nú hefur einn úr hópi fjölmiðlamanna, Sigmundur Ernir, ákveðið að gera áhlaup á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og komast þannig inn á þing.
En ég vona að þeir sem koma til með að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar hér fyrir austan láti ekki svona skrautfjaðrir slá ryki í augu sín heldur kjósi til forustu þá sem hafa sýnt það að þeir eiga erindi í pólitík.
Áfram Jónína Rós.

|