30 september 2005

Laufblöðin falla

 

 

Benzi minn var þakinn laufblöðum þegar ég kom út í morgun. Elritrén standa hálf nakin framan við húsið og það er snjó niður í miðjar hlíðar í fjöllum. Svo bara rignir og rignir. Þetta er ekki rétti árstíminn til að mæta í vinnuna, maður væri betur geymdur undir sæng með góða bók.

 

Við Kolgríma erum búnar að taka að okkur fósturbörn. Ellefu ára stúlkukind og þriggja mánaða kettling sem hún á. Ég gæti stúlkunnar en Kolgríma gætir Grislings, en svo heitir litli kisinn. Það gekk á ýmsu kvöldið sem fósturbörnin komu. Kettirnir slógust og hvæstu á hvorn annan og í fyrradag voru þeir hafðir alveg aðskildir. Í ær höfðum við Kolgrímu og Grisling í sama rýminu meðan ég var í vinnunni og fósturdóttirin í skólanum. Ég átti allt eins von á að íbúðin yrði eins vígvöllur en þegar ég kom heim í hádeginu kúrðu kisurnar saman á uppáhalds staðnum hennar Kolgrímu, þ.e.a.s. á bómullarastykki, úti í horni á stofuglugganum, yfir heitum ofninum og með útsýni út í garð. Íbúðin ber þess merki hvað kettirnir aðhafast þegar þeir eru einir heima og gluggakistan í stofunni er öll út í kattasporum. En hvað með það, það þarf hvort eð er að þrífa um helgina.

 

Kettirnir eru ótrúlega skemmtilegir á að horfa þegar þeir leika sér saman.

 

Kolgríma veit fátt skemmtilegra heldur en þegar ég set skúringadiskinn í spilarann og fer að dansa um húsið með afþurrkunarkústinn, -klútana og moppurnar. Hún tekur sér far með moppunni, er reyndar að verða of stór til þess, og reynir að veiða afþurrkunarkústinn. Ég varð að kaupa nýjan kúst og gefa henni þennan gamla til að leika með. Hins vegar tryllist hún og hleypur í felur ef ég fer að ryksuga.

 

Fósturbörnin verða hjá okkur fram á sunnudag og það er ágætt að fá smá líf í húsið. Blómin mín eru öll komin annað hvort upp í hæstu hillur eða í lokuð herbergi því báðir kettirnir hafa einstaklega gaman af að róta moldinni út um allt.

 

Speki dagsins: Sjaldan fellur smiður langt frá stillansa.

 

 

|