01 október 2005

Hótel í Kaupmannahöfn

Frumburðurinn og ég ætlum í helgarferð til Köben í nóvember. Aðalerindið er að heimsækja lambið mitt (sjá tengilinn hér á síðunni) en hún dvelur í lýðháskóla í Krogerup. Ég hélt að þetta væri skóli en virðist hins vegar, eftir fréttum að dæma, vera mikill gleðistaður þar sem lífið gengur út á að leika sér – sem er í sjálfu sér tilgangur lífsins.

Við erum búnar að kaupa flugmiðana, ég bókaði hótel á netinu og við ætlum að hafa það virkilega huggulegt. Þetta virtist í fyrstu vera frekar ódýrt hótel, en miðað við færslur á vísareikningnum mínum er þetta alltaf að verða dýrara og dýrara en ég átti von á.

Fyrst var skuldfærð ein bókun og svo önnur og þegar við báðum um leiðréttingu var skuldfærð 3. bókunin. Með þessu áframhaldi verð ég orðin hóteleigandi í Kaupmannahöfn þegar ferðin hefst. Veit ekki alveg hvernig ég á að taka þessu. Ég er mjög sátt við mitt hlutskipti í lífinu, ánægð í vinnunni og líður vel í húsinu hér með henni Kolgrímu. Það er bara gott að búa á Íslandi. Ég hef satt að segja ekkert verið að ráðgera að fara út í hótelrekstur í Danmörku.

Þegar fósturdóttirin kom úr skólanum í gær var Grislingur að skoða sig um á arinhillunni og búinn að henda niður blómavasa sem lá í brotum á gólfinu. En hvað um það, nú er bara minna verk að þurrka af arinhillunni.

Kvöldið var ljúft og við snæddum kjúklingalæri með helling af frönskum og drukkum kók með. Foreldrarnir hvergi nærri, svo við drógum fram daimköku sem við höfðum grafið upp úr frystikistunni í Bónus og súkkulaðiís. Komum okkur svo vel fyrir framan við sjónvarpið og gæddum okkur á þessu gúmmelaði meðan við horfðum á Latabæ.

Í morgun klifraði Grislingur upp í grenitréð í garðinum og við urðum að ná í kúst og sópa honum niður úr trénu.

Allt sukkið í gærkvöldi varð til þess að ég mætti í leikfimi í morgun. Þórveig var í essinu sínu og gerði næstum útaf við mig í body pump. Þríhöfðinn, tvíhöfðinn og læravöðvarnir eru helaumir. Ég var í nýja íþróttabrjóstahaldaranum mínum og hann klessir brjóstunum alvega að bringunni og skorðar þau föst milli rifbeinanna.

Ég held ég hljóti að hafa losnað við allar kalóríurnar sem ég raðaði í mig í gærkvöldi.

Speki dagsins: Þær hitaeiningar sem þú innbyrðir þegar enginn sér til teljast ekki með.

|