Sveitaball
Nína vinkona mín og ég erum báðar af Barbie-árgerðinni. Mjög góður árgangur með dulúðlegan ilm en beiskt eftirbragð fyrir þá sem ekki kunna meta hann.
Við Nína sáum það auglýst að hjómsveit að sunnan ætlaði að koma og halda dansleik í félagsheimilinu okkar. Ekki nein slordóna hljómsveit, heldur bara sjálfir Paparnir.
Ég hafði reyndar aldrei upplifað það sjálf að fara á ball með þeim, en heyrt margar sögur af því hvað þetta væru skemmtilegar samkomur. Nú var tækifærið að sannreyna þessar sögusagnir og ég ákvað að láta það ekki framhjá mér fara.
Aldurinn er obbolítið farinn að setja mörk sín á mig svo ég varð að teikna á mig unglegt og hitaþolið andlit. Síðast þegar ég brá mér á dansleik var nefnilega svo rosalega heitt og loftlaust í félagsheimilinu að maður rennsvitnaði á því einu að sitja kyrr og aðhafast ekki neitt.
Við mættum þarna galvaskar og tylltum okkur við borð. Ég sat þar næstum allt kvöldið því það datt bara ekki nokkrum einasta manni í hug að bjóða mér upp í dans. Nína sat hins vegar ekki eins mikið kyrr og ég því hún líkist Barbie meira en ég, er hávaxin og grönn. Ég líkist meira rússneskri babúsku. En hvað um það, maður fer nú ekki að grenja yfir svona smámunum og ég skemmti mér konunglega. Þetta var dúndurgóð hljómsveit, með fjörug og skemmtileg lög. Og þó engum dytti í hug að bjóða mér í dans, kom fullt af skemmtilegu fólki að spjalla við mig.
Kannski að menn séu almennt sömu skoðunar og maðurinn sem settist hjá mér á balli í sumar og sagði við mig: Ég veit allt um þig. Þú drekkur ekki og þú dansar ekki.
Það er að vísu smá sannleikskorn í þessu, en samt ekki nema 50% sannleikur.
Grislingur er óþarflega duglegur kisi, ekki nema þriggja mánaða gamall. Í gær veiddi hann fugl og var að tæta hann í sundur úti á palli þegar ég kom að honum. Í morgun þegar Nína kom og við sátum, drukkum kaffi og vorum að slúðra um dansiballið, þá vappaði hnöttóttur skógarþröstur framan við pallinn þar sem við sátum í sólinni. Ég sagði við þröstinn að hann skyldi forða sér, þetta væri lífshættulegt svæði sem hann væri kominn inn á, sannkölluð dauðagildra. En hann hlustaði ekki á mig og þrátt fyrir að hann væri bókstaflega að springa af spiki hélt hann áfram að draga orma upp úr jörðinni. Ég bað Guð að gefa að þrösturinn fengi að lifa daginn af, en því miður var ég ekki bænheyrð. Klukkutíma seinna þurfti ég að hreinsa leifarnar af honum af pallinum.
Speki dagsins: Ókunnugir eru vinir sem þú átt eftir að eignast.