04 október 2005

Altsheimer???

Dagurinn í gær byrjaði ósköp vel. Ég lagaði mér gott kaffi, mætti kl. 8 í vinnuna og lagaði mér enn meira af góðu kaffi.

Það var enginn í húsinu og ég hafði gott næði að sötra kaffi og byrja að vinna fyrir kaupinu mínu – sem þið öll eruð svo góð að greiða mér mánaðarlega, ríflega eina krónu hvert ykkar og kunnum við kisa ykkur bestu þakkir fyrir.

Nú ég var ekkert að fylgjast með tímanum fyrr en það er hringt og ég sé að klukkan er aðeins að byrja að ganga 10. Er ekki bara hárgreiðslukonan mín í símanum og ég vissi að það gat bara þýtt eitt, ég hafði gleymt að ég ætti pantaðan tíma.
Hvernig getur kona á mínum aldri gleymt eins mikilvægu atriði eins og að mæta í klipp og stríp ? Hárgreiðslukonan mín er engill og eftir tvær mínútur var ég sest í stólinn hjá henni.

Í fyrra fékk ég bréf frá heilsugæslustöðinni minni. Ég var beðin um að taka þátt í leitinni að altsheimergeninu. Ég??? Hvernig datt lækninum þetta í hug? Ég veit ekki til að þetta gen sé í mínum fórum og enginn ættingi minn kannast við að hafa fengið svona bréf. Annað hvort hefur læknirinn gleymt því að hann bað mig um þetta eða hann hefur fundið þetta blessaða gen einhvers staðar annars staðar.

Áður en ég yfirgaf hárgreiðslukonuna mína bókaði ég hjá henni eina klippingu fyrir Kaupmannahafnarferðina og aðra fyrir jólin. Merkti þetta á öll dagatöl í kringum mig, set þetta á áminningu í tölvunni á eftir (ef ég gleymi því ekki) og svo verð ég að muna að panta líka tíma á snyrtistofunni fyrir jól svo ég verði ekki eins og hottintotti yfir hátíðarnar.

Speki dagsins. Það er svo miklu léttara að hjóla þegar maður hefur mótvindinn í bakið.

|