03 október 2005

Hún á afmæli í dag ...

 

 

Ósköp þýtur þessi tími hratt áfram. Maður er rétt búinn að láta ferma sig þegar börnin fara að koma í heiminn og rétt búinn að baða þau í fyrsta sinn þegar þau eru bara farin að heiman, maður nær varla að þurrka þeim.

 

Svo sitjum við kisa hér tvær einar og grátbiðjum þennan tíma að hægja aðeins á sér svo við getum fengið að njóta augnabliksins.

 

Í dag eru 20 ár síðan litla örverpið mitt leit dagsins ljós. Þetta var ósköp lítið grey, bara 10 merkur og 48 cm. Samt var hún búin að hafa 40 vikur til að búa sig undir komuna í heiminn.

 

Þessi elska hafði verið ósköp róleg alla meðgönguna. Hreyfði sig nánast ekki neitt og ég var löngu hætt að óttast að eitthvað væri að, heldur var ég alveg sannfærð um að það væri eitthvað meira en lítið að. Það kom mér mjög á óvart að þetta pínulitla pons sem mér var sýnt 3. október 1985 væri heilbrigt og hreyfði alla útlimi alveg eins og börn gera. Hún meira að segja gaf frá sér hljóð.

 

Ég fékk hana ekki strax í fangið því þetta litla pons sem nennti ekki að hreyfa sig í móðurkviði hafði alls ekki nennt að troða sér þessa ókristilegu þröngu leið út í lífið sem systir hennar hafði farið með harmkvælum 8 árum fyrr. Og þannig hafa þær systur alltaf farið ólíkar leiðir frá upphafi. Sú eldri lét sig hafa það að troða sér út í ljósið, en sú yngri beið bara salla róleg þar til einhver var svo góður að skera gat á belginn og hleypa henni út.

 

Ég sendi afmæliskveðju til Krogerup og til tveggja bræðradætra minna í höfuðborginni sem líka eiga afmæli í dag.

 

Fósturbörnin fóru frá okkur Kolgrímu í gær. Kisi var búinn að fanga tvo fugla og var á góðri leið með að vinna sér inn heiðursaðild í Fuglaveiðifélagi Íslands. Stúlkukindin varð hins vegar fyrir slysi í gær og henni var skilað með tognaðan úlnlið.

 

Ég hafði brugðið mér af bæ. Fósturdóttirin var á fótboltaæfingu svo ég skildi eftir miða á eldhúsborðinu með gsm-númerinu mínu og skilaboðum um hvert ég fór. Stúlkukindin kemur svo bara slösuð að tómum kofanum en sem betur fer voru foreldrar vinkonu hennar hér í næstu götu heima og þau voru svo góð að fara með hana á slysó þar sem hún var vafin og kysst á bágtið.

 

Ég efast um að við Kolgríma verðum beðnar um það á næstunni að passa. En mamman var ekkert mikið reið yfir þessu gæsluleysi og snæddi með okkur steiktan fugl áður en þær mæðgur og kisi fóru til síns heima.

 

Til að forðast misskilning skal tekið fram að fuglinn sem ég steikti var keyptur út í búð en ekki veiddur úti í garði.

 

Speki dagsins (og lífsmottóið mitt). Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Eða eins og við segjum hér á Íslandi, þeir fiska sem róa.

 

|