03 apríl 2008

Afmæli

Þær eiga báðar afmæli í dag kisulórurnar í Skógarkoti.
Klófríður kjáni er fjögurra mánaða í dag. Hún heldur uppi fjörinu á heimilinu, er óttalegur óþægðargemsi, en yndislega góð og skemmtileg.
Hún heldur að hún sé íslenskur hundur og gengur um með hringaða rófu. Reyndar er hún ekki hringuð inn eins og á íslenska hundinum, heldur myndar þessi langa rófa hennar oftast spurningarmerki og er hringuð út. Ég hef aldrei séð kött sem gengur um með rófuna svona.
Svo er það elsku dúllan og primadonnana hún Kolgríma mín Högnadóttir. Húsbóndinn á heimilinu, hún er þriggja ára í dag. Hún er ósköp góð við Klófríði litlu, en fer stundum fram í bílskúr þegar hún vill næðis njóta.
Þær eru miklir gleðigjafar þessar elskur, eins og ég hef aðeins drepið á hér á síðunni. Og þó að það sjái á heimilinu eftir kisurnar og þó að það þurfi alltaf að vera að þurrka af, sópa og ryksuga þá elska ég þessar kisur og fyrirgef þeim þeim þó þeim verði eitthvað á. Enda hafa þær annað mat á því en ég til hvers leðursófi og aðrir hlutir eru.
Svo á hún Sissa mágkona líka afmæli í dag. Til hamingju með daginn gæskan.
Í tilefni dagsins er hér kveðskapur sem Steinrún Ótta sendi mér.

Klófríður og Kolgríma,
kattavina-andi.
Kúldrast upp við kamínu
í Katta-landi
Kenjóttar en krúttlegar
í kattavina-bandi
Kassavanar kisulórur
í katta- sandi.
Kyssir Gríma Klófríði
í kattavina-standi
Kærleikur í Kotinu.
Malandi.

|