26 mars 2008

26. mars

Heilsuátakið í gær fór alveg með mig.
Núna ligg ég dúðuð undir sæng með hausverk og beinverki, alveg að farast úr kulda.
Ég verð að láta mér batna fyrir föstudaginn, en þá ætlum við Maggi í leikhúsferð til Akureyrar og kíkja í búðir þar á laugardaginn.
Fyrir 36 árum á pálmasunnudag 26. mars 1972 var ég fermd í Kópavogskirkju.
Eftir athöfnina var farið með mig í myndatöku til Jóns Kaldal á Laugavegi 11, eins og ég gat um hér fyrir nokkru.
Ég fann fermingarmyndina af mér í páskatiltektinni. Voðalega hef ég verið sakleysisleg og sæt þegar ég fermdist. Verst að ég bý ekki yfir þeirri tækni að geta sett myndina á síðuna.
En ég velti því fyrir mér þegar ég horfi á þessa mynd að þegar hún er tekin þá veit ég ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Enda held ég að ég hafi ekkert brotið heilann mikið um framtíðina á þeim tíma. Lífið snérist bara um pabba, mömmu, Kópavoginn og vini mína.
Þessi 36 ár hafa að vonum verið viðburðarík. Ég flutti með foreldrum mínum austur á Hérað, giftist honum Finni sem ég varð ástfangin af sumarið 75 þegar ég var á Hallormsstað, eignaðist með honum tvær dætur og núna bý ég bara ein með kisunum mínum tveimur. Finnur dáinn og dæturnar búnar að stofna sín eigin heimili í Reykjavík. Lífið heldur áfram og ástvinir koma og fara.
Mín skoðun er sú að hamingjan er ekki undir því komin hvað á vegi manns verður, heldur á hvern hátt maður tekst á við þau verkefni sem falla manni í skaut.
Ég held að lífsgleðin búin innra með manni en sé ekki falin í umhverfinu.

|