24 mars 2008

Við prinsessurnar

... í Skógarkoti höfum það aldeilis bærilegt.
Ég vaknaði upp við malið í Klófríði og Kolgríma hafði hringað sig niður við fætur mínar.
Þegar við Anna Guðný vorum búnar að gæða okkur á hamborgarhryggnum í gærkvöldi, þá leið mér eins og það væru jólin. Ég útbelgd af góðum mat og húsið hreint og fínt. Svo háttaði ég ofan í tandurhreint rúmið og kom mér vel fyrir með bók - Tveir húsvangar eftir Marina Lewycka.
Fyrst þegar ég byrjaði að lesa þessa bók náði ég ekki alveg sambandi við hana en svo datt ég alveg inn í söguna, þetta er ekki síðri bók en Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku, en ég las þá bók í fyrra.
Þetta er frábær höfundur og ég hlakka til að lesa meira eftir hana.
Dagurinn er frekar óráðinn, en ég sé að ég verð límd við sjónvarpið í kvöld. Ég sem horfi nánast aldrei á sjónvarp. En í kvöld er hver myndin af annarri sém ég þarf að horfa á. Fyrst Mannaveiðar, svo kemur mynd sem ég hef reyndar séð, en gæti alveg horft á aftur. Svo spennumynd sem ég gæti trúað að væri góð, en loks kemur mynd með Pierce Brosnan og hann er í svo miklu uppáhaldi hjá mér að ég verð sko að horfa á þá myndi.
Sem sagt, popp og kók í kvöld.

|