14 mars 2008

Enn og aftur í borginni

Kom til borgarinnar í gær.
Fór beina leið í Þjóðleikhúsið að sjá Ivanov. Alveg frábær sýning. Lýsingin og sviðið magnað og leikurinn auðvitað frábær enda valinn maður í hverju hlutverki.
Gaman að sjá þetta leikrit eftir að vera búin að sjá Brúðgumann.
Ég vil taka undir ályktun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Það nær auðvitað engri átt að halda flugmálum þjóðarinnar í svona einokun á 21. öldinni. Svo má nú enn og aftur vekja athygli á að flugstöðin í Reykjavík er örugglega sú frumstæðasta á byggðu bóli. Alla vega á Norðurlöndum. Þetta er hreinlega til skammar.
Það er með ólíkindum að þessar stríðsminjar sem þessi flugstöð er, skuli vera í notkun.
Um daginn þegar ég sótti Nínu á Reykjavíkurflugvöll þá fékk ég bílastæði rétt við afgreiðsluna, það lá við að ég færi að afgreiðsluborðinu og þakkaði sérstaklega fyrir þessi undur og stórmerki. Að fá bílastæði við flugstöðina er næstum efni í fréttir hjá Ruv.
Þegar ég hitti gömlu Kópavogsvinkonurnar mínar um daginn var ég að hvetja þær til að koma austur, en þær báðu bara Guð að hjálpa sér, það væri dýrara að fljúga til mín en til útlanda. Ég er náttúrulega ekki í útlöndum, þannig að þær eiga ekki að setja það fyrir sig, en þetta nær auðvitað engri átt hvað Flugfélag Íslands getur verðlagt innanlandsflugið hátt.
Ég vona að Gísli Marteinn sjái sóma sinn í að standa ekki í vegi fyrir eðlilegu innanlandsflugi og að Iceland Express fái sómaasamlega aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli.
Flýg heima í kvöld og ætla að hafa það huggulegt í heimabyggð um helgina. Kíkja á mömmu sem verður 87 ára á laugardaginn og kannski elda eitthvað gott handa Magga sem á líka afmæli á laugardag.
Svo er bara komið að páskum og þá bretti ég upp ermarnar og kafa í kassana sem ég hef ekki enn opnað eftir flutninga. Ætla að reyna að koma skikk á bókasafnið, en það bíða hátt í 50 kassar af bókum eftir að ég skoði þá og gangi frá bókunum í hillur.

|