02 mars 2008

Þorrablótsvertíð lokið

Þetta var fínn fjallatúr þó veðrið hefði mátt vera betra.
Við lentum í alls konar ævintýrum. Keyrðum fram af hengju en sluppum ótrúlega vel, karlarnir fengu nóg af dekkjavandræðum til að skemmta sér við, affelganir og sprungin dekk. Skemmtinefndin lenti í hrakningum og mætti ekki í Kverkfjöll fyrr en undir lok borðhaldsins. Þeir urðu að skilja tvo bíla eftir einhvers staðar á leiðinni. Ég held að þessi skemmtinefnd hafi ekkert lagst í koju, hún skveraði annálnum af, við sungum alla söngbókina hratt og örugglega og svo þegar síðust menn lögðust í koju dreif skemmtinefndin sig aftur til byggða eftir að hafa fengið sér smá þorramat.
Ekki varð ég nú neitt vör við alla þessa jarðskjálfta sem ég frétti ekkert af fyrr en við komum til byggða. Ég hefði kannski látið það eiga sig að fara lengst inn í íshelli ef ég hefði vitað að það léki allt á reiðiskjálfi.
En það var mjög gaman að fara í íshellinn og einhverjir drifu sig í bað. Við Nína létum okkur nægja að dáðst að hellinum og öllum hrímuðu grílukertunum í honum.
En þó veðrið hafi ekki leikið við okkur gerði það ekkert til því við vorum í góðum félgsskap og ég held að allir hafi skemmt sér vel.
Svo má geta þess að þorramaturinn var mjög góður, ég hef ekki fengið svona góðan súrmat síðan fyrir aldamót.

|