19 febrúar 2008

Vöfflubakstur

Í gær ætlaði ég virkilega að slá í gegn.
Ég er nýbúin að eignast vöfflujárn, hluti af innflutningsgjöf sem ég fékk frá þeim sem vinna á Lyngásnum.
Nú, ég hugðist baka dýrindis vöfflur og fær þeim feðgum Magga og Fannari þar sem þeir voru eitthvað voðalega mikið að bardúsa á Stekkjartröðinni í gærkvöldi.
Ekki tókst nú vel til. Ég gerði bara eins og á liðinni öld þegar ég var síðast að baka vöfflur, hrærði saman hinu og þessu, smá hveiti, svolítill sykur, natrón, egg, smjörlíki og eitthvað fleira sem ég fann í eldhúsinu og fannst að gæti átt heima í vöffludeigi, eða soppu eins og tengdamamma hefði sagt.
En ekki urðu nú vöfflur úr þessu. Þetta jukk festist bara í nýja vöfflujárninu og var þar að auki svo lítið spennandi að jafnvel Klófríður sem er til í að smakka flest, fitjaði bara upp á trínið.
Það sem áttu að vera vöfflur er allt komið út í ruslatunnu en ég ákallaði eldhúsguðinn minn og Gréta sendi mér uppskrift af vöfflum hinnar myndarlegu húsmóður. Gréta fullyrðir að í vöfflur sé nauðsynlegt að hafa lyftiduft, natrón sé fyrir pönnukökubaksur. Jæja, þá veit ég það.
Ég er að spá í að reyna aftur fyrir mér í vöfflubakstri í kvöld og sjá hvort betur tekst til. Ef ekki, þá bara er vöfflujárn á lausu í Skógarkoti.

|