Kappinn hann Maggi
Það er siður hér á Egisstöðum að vinnandi fólk skreppur heim til sín í mat, nema náttúrulega þeir sem borða í mötuneytum.
Í dag þegar ég var að fara aftur í vinnuna eftir að vera búin að fá mér bita og klappa Kolgrímu og Klófríði, þá vildi ekki betur til en svo að ég pikkfesti hann Súbba minn á bílastæðinu mínu. Það er nefnilega töluverður snjór hér í fjalllendinu á Egisstöðum og reyndar líka niður í dalnum, í aðal byggðinni.
Hvað um það, þarna var ég bara föst og komst hvorki lönd né strönd svo ég hringdi í Magga og bað um aðstoð.
Í götunni voru fastir bílar, stærri bílar en hann Súbbi minn og Maggi var ekkert lítið kappalegur þegar hann kom á stóra Landkrúsernum og sveigði fimlega í sköflunum framhjá föstum bílum og kom og bjargaði Súbba úr sjálfheldunni.
Súbbi fór bara inn í bílskúr en ég klöngraðist með erfiðsmunum upp í stóra Krúser og fór og sótti mér verkefni niður í vinnu sem ég tók svo bara með heim og var þar að vinna það sem eftir var dagsins. Stigbrettið á stóra Krúser er svona í brjóshæð á mér svo ég þarf eiginlega stiga til að komast upp í hann.
Maggi lánaði mér svo litla spari Landkrúserinn til að ég gæti farið á þorrablótsæfingu á Iðavöllum í kvöld. Fyrir svona klofstuttan kvenmann eins og mig er svo sem alveg nóg að klöngrast upp í óbreyttan Landkrúser.
Það má segja að eina ófærðin hér á Egilsstöðum og nágrenni er í götunni minni, enda hefur ekki sést snjóruðningstæki hér í 10 daga svei mér þá. Niður í þorpi eru stórir haugar af snjó sem hefur verið mokað af götunum.
En þorrablótsundirbúningurinn gengur bara ótrúlega vel, ég held að það stefni í að það verði haldið þorrablót á Völlum árið 2008.