Klófríður kjáni
Í dag hefur mér verið kalt inn að beini, svo þið sjáið hvað það hefur verið mikill kuldi á Héraði að hann skuli ná svo langt.
Ég hitti mann sem sagði að það væri ekki enn tímabært að kvarta yfir kulda því það ætti eftir að kólna enn meira þegar liði á vikuna.
Til að ná úr mér hrollinum lét ég renna í heitt og gott bað. Meðan ég beið eftir að baðkarið fylltist settist ég fram í stofu og fletti Mogganum.
Heyri ég þá ekki bara splass, skvamp og sull úr baðherberginu. Ég þau á fætur og kom rétt passlega til að sjá hana Klófríði mína skríða rennblauta og skælandi upp úr baðkarinu.
Litli kjáninn. Ég pakkaði henni inn í handklæði og reyndi að ná mestu bleytunni af henni en þrátt fyrir að hafa lent í þessu óhappi vildi hún endilega sitja á baðkarsbrúninni meðan ég var í baði og þar var þetta holdvota grey að sleikja feldinn sinn.
En að öðru. Nú er mælirinn fullur að mínu mati. Ef ég fengi að ráða þá yrði fyrrum uppáhalds sjónvarpsþátturinn minn, Spaugstofan, lagður niður. Ég held að þessir svokallaðir grínistar hafi ekki snefil af siðferðisvitund lengur. Hafa þeir aldrei heyrt um að aðgát skal höfð í nærveru sálar? Þegar menn fara að skopast að veikindum fólks þá er mér nóg boðið.
Það er fullt af hæfileikafólki út í samfélaginu sem ætti að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og þessir gömlu Spaugstofukarlar ættu að fara að setjast í helgan stein.