24 janúar 2008

Hjá dýralækninum

Kolgríma fór í ormahreinsun í morgun.
Við mættum á réttum tíma en þurftum að bíða dágóða stund eftir að Hjörtur dýralæknir léti sjá sig. Kisa var ekkert hrifin af þessu ferðalagi.
Þegar Hjörtur loks birtist var hann að tala við einhvern hundaeiganda í símann. Hann nikkaði til mín, benti mér á að koma með kisu inn á aðgerðarstofuna, hélt áfram að tala um hundaofnæmi og meðhöndlun á hundum í símann en fór að leita í skúffum og skápum að einhverju, sem ég reiknaði með að væri til ormahreinsunar.
Hann fann lyfjaglas, sprautu og fór að draga upp í sprautuna. Alltaf var hann samt að tala við hundaeigandann í símann.
Þegar hann nálgaðist Kolgrímu með sprautu á lofti þá leist mér ekki lengur á blikuna og sagði honum að kisa væri að koma í ormahreinsun.
Þá rankaði hann við sér, kvaddi hundaeigandann og baðst afsökunar, hann minnti að hann hefði átt von á ketti í geldingu og ætlaði að fara að svæfa köttinn.
Eins gott að það er ekki svona hjá mannalæknum.
Kisa fékk svo ormalyfið og ég fór heim með lyf handa Klófríði svo nú eru þær báðar nýhreinsaðar.

|