11 janúar 2008

Reykjavík city

Brá mér örferð til höfuðborgarinnar.
Það er afskaplega þægilegt að geta lent í miðborg Reykjavíkur, þar bíður bílaleigubíll og svo getur maður endasendst um borgina á einum degi og tekið kvöldvélina heim aftur.
Reyndar notaði ég daginn á námskeiði niður við Lækjartorg sem endaði með heimsókn í Hæstarétt. Ef þið eruð að þvælast í bænum og gerist lúin, þá vil ég benda ykkur á að í Hæstarétti eru áhorfendabekkirnir á við allra bestu sæti í bíó. Vantar bara popp og kók, þá væri maður í 7. himni. Mig langaði mest til að fá mér blund það fór svo vel um mig. Skrapp í Reykjavíkursveitina og knúsaði örverpið áður en ég fór aftur heim á Hérað.
Ég steinsofnaði í fluginu á leiðinni heim, enda var þetta ekki svona hryllingsflug með ókyrrð, ælum og taugaáföllum eins og manni heyrist að tíðkist núna, báðar ferðir voru fínar.
Þegar ég kom heim í Skógarkotið fékk ég aldeilis góðar móttökur. Báðar kisurnar komu hoppandi fram í forstofu, heilsuðu mér og stungu svo smá saman nefjum að því loknu. Þær enda sem góðar vinkonur.
Ég hef verið að máta allar þessar fínu nafnatillögur sem ég hef fengið á kisu. Ég held ég láti hana heita Kleópötru Kúld. Kleópatra eftir þeirri egypsku og Kúld til heiðurs Þuríði Kúld sem bjó í Stykkishólmi á 19. öld og var minnst sem mikillar glys-og gleðikonu.
Kleópatra Kúld. Hjómar það ekki bara vel?

|