27 desember 2007

Í ævintýralandi

Æi, ég veit að þið eruð orðin hundleið á að lesa um Skógarkotið.
Mér líður bara svo vel hérna. Það er búið að vera svo kósý hjá okkur Kolgrímu í kvöld. Litla jólatréð mitt er augnayndi. Það er snjór yfir öllu og það er svo falleg að horfa niður í gegnum skóginn á jólaljósin þarna niður í þorpi. Ég vona að allir hafi jólaljósin sín í það minnsta fram á bóndadag.
Ég er að brjóta heilann um hvort ég eigi ekki að stíga á stokk um áramótin eins og oft áður. Ég þarf að laga svo margt í fari mínu sem ég verð að lofa sjálfri mér að taka föstum tökum.
Bæta mataræðið, mæta í ræktina, hætta að vera svona löt á morgnanna (skil það nú ekki, ég sem hef alltaf verið morgunhani) o.s.frv. o.s.frv.
Svo þetta klassíska sem ég hef strengt heit mörg undanfarin áramót - léttast um 10 til 15 kg á næsta ári. Kannski ég sleppi því bara ég er svo oft búin að svíkja það loforð.
En það er eitt sem ég er að bræða með mér hvort ég ætti að hafa sem nýársheit. Ég veit varla hvort ég eigi að þora að segja frá því. Ég hef nefnilega aldrei lært að dæla bensíni á bílinn og hef alltaf keypt bensín þar sem er þjónusta. Einu sinni ætlaði ég að taka bensín í Nesjunum en þar var bara sjálfafgreiðsla svo ég snéri við niður á Höfn til að taka bensín hjá Esso. Þó ég sé nú af framsóknarætt er þetta kannski full mikið af því góða. Enda er þetta ekki af pólitískum rótum runnið, Esso hefur bara lengst haldið í þjónustu á bensínstöðvunum hér fyrir austan.
En ég er eiginlega farin að skammast mín fyrir þennan aulagang - svo fer hvort sem er að líða að því að hann Eðvald hætti í bensíninu og þá er ekkert lengur gaman að taka bensín, hann nefnilega spjallar alltaf.
Ég hef afsakað mig með því að ég vil ekki sulla bensíni á mig og það vita það nú allir sem hafa setið til borðs með mér að mér hættir alveg rosalega til að sulla niður á mig. Skil þetta ekki, eins og ég er annars pen kona.
Jæja, þá er það bara spurning, ætti ég að strengja þess heit að læra á bensíndælu?

|