19 desember 2007

Að missa andlitið

Mér brá ekkert lítið í morgun.
Ég var bara að drekka morgunkaffið í rólegheitum, var búin að blogga og fór að spjalla við örverpið á msn. Sat bara svona frekar fáklædd inn í stofu enda er ég nánast ein í heiminum í Skógarkotinu mínu. Kolgríma var að nusa af jólakortunum og við vorum bara í góðum gír saman.
Nema hvað, allt í einu sé ég að það er karlmaður á pallinum framan við stofugluggann! Úbbs, Jóli á ferð svona snemma morguns? Allt í einu sé ég að það er búið að koma ljóskastara fyrir og það kviknar á honum. Ljósgeislinn fellur á húsið og þar með stofugluggana!
Jesús, Pétur og Jóhannes og ég á brókinni og smá sloppgopa!
Þegar ég sá að maðurinn brá sér frá þá skaust ég inn í herbergi og í föt. Fór svo út að athuga málið.
Þá var þetta bara einn af smiðunum að koma rafmagnstengingu í skorsteininn. Hann var ekkert á vegum jólasveinsins, bara á vegum Viðhaldsins.

|