11 desember 2007

Hvurslags eiginlega er þetta

... með okkur Austfirðinga?
Þegar fornminjar eru annars vegar og gamlir merkir hlutir virðumst við Austfirðingar ekki fatta að þeir tilheyra menningarsögunni.
Það vefst ekki fyrir okkur að sökkva hálendinu okkar og byggja álverksmiðju, nei, þá þarf ekki að brjóta heilann mikið, ekki frekar en þegar forngripir eru annars vegar.
Á 19. öld fann bóndi í Skriðdal sverð frá landnámstíð. Happafundur fyrir fátækan bónda sem bræddi sverðið upp og smíðaði sér skaflaskeifur.
Gamla Grímsárbrúin sem byggð var fyrri hluta 20. aldar, brú eins og Fnjóskárbrúin gamla. Hún var sprengd upp í skjóli nætur 19. júní 1983.
Gamla kirkjan á Ketilsstöðum, kirkja með óvenjulega og skemmtilega sögu. Það var ekki hægt að setja pening í að endurbyggja hana svo hún var bara rifin.
Miðhúsasjóðurinn, hann var ekta og hann var fluttur suður, sem betur fer annars hefðum við brætt hann upp og smíðað eitthvað úr honum.
Valþjófsstaðahurðinni var sem betur fer bjargað suður á Þjóðminjasafnið, annars má Guð vita hvað við hefðum fundið upp á að gera við hana.
Nýjasta dæmið er auðvitað þessi skandall á Seyðisfirði. Vantar heilasellur í fólk sem bara gengur um og brýtur og bramlar þessar fallegu innréttingar.
Ég sá þessar innréttingar auðvitað oft meðan eina verslun ÁTVR á Austurlandi var þarna til húsa. Þegar Héraðsmenn fóru yfir Alkahólinn, sem heitir víst Fjarðarheiði, og keyptu sér brjóstbirtuna á Seyðisfirði. Þetta var fyrsta áfengisversluni sem ég verslaði í, en það er nú önnur saga.
Ég var svo heppin, stuttu eftir að ÁTVR lagði niður starfsemi í þessu húsnæði, að fá að koma og skoða þessar fallegu innréttingar. Ég verð að viðurkenna að ég hefði ekki einu sinni trúað því upp á okkur Austfirðingar að skemma þessa fallegu hluti.
Okkur hér fyrir austan er hvorki treystandi fyrir landinu né sögunni.

|