26 nóvember 2007

Nú fjúkið úti fýkur

... og frostið bítur kinn.
En ekki mínar, því Súbbi minn var í bílskúrnum í nótt og ég settist í heitan og fínan bílinn í morgun, ýtti á takka og bílskúrshurðin fór upp.
Það rann á mig æði í gær og ég umstaflaði öllu bókasafninu og flutti fullt af dóti til svo ég gæti haft pláss fyrir bílinn í bílskúrnum.
Mikil dæmalaus dekurdúlla er maður. Ég var að hugsa um það í morgun hvað ég hef það gott. Hafið þið hugleitt það góðir Íslendingar hvað við höfum það rosalega gott. Maður skrúfar frá krana og það bunar endalaust ferskt og gott kalt neysluvatn. Meira að segja Kolgríma er orðin svo dekruð að það þýðir ekkert að setja vatn í skál á gólfið, nei, hún vill bara fá vatn sem rennur ferskt úr krananum, ekkert staðið sull.
Svo lætur maður renna fleiri tugi lítra af heitu, tæru vatni í baðkar, fer ofan í og hefur það notalegt, eða skrúfar frá sturtunni og lætur þetta góða vatn buna yfir kroppinn.
Þetta eru okkur svo sjálfsögð þægindi að við hugsum varla um það. Ég fékk í pósti myndir frá Afríku þar sem fólk býr við vatnsskort, auk annars skorts og ég fór að hugleiða hvað maður hefur það óendanlega gott hér á Íslandi í heitum og góðum húsum með allt sem maður þarfnast og gott betur.

|