12 nóvember 2007

Af hverju þarf allt að vera stórt?

Búðir stækka og stækka og stækka.
Ég man þegar Byko var lítil búð í skúrbyggingu við hliðina á blómbúð Þórðar á Sæbóli.
Svona búðir þrífast víst ekki í dag og kaupmaðurinn á horninu er kominn á Árbæjarsafnið, eða vonandi hefur tekist að varðveita eitt eintak svona til minja.
Núna eru auglýstar opnanir á stórum verslunarmagasínum og enn stærri verlunarmagasínum og risastórum leikfangabúðum - fólk verður að gæta þess að týna ekki börnunum inn í þessum stóru leikfangabúðum, það er ekki víst að þau finnist nokkurn tíma aftur.
Ég held að ég verði bara eins og Svante í Svantesvisum þeirra Poul Dissing og Benny Andersen ef ég hætti mér inn í svona risastórmagasín.
Og af því að við hér útiálandiliðið þurfum líka að versla þá vill svo heppilega til að núna á næstu dögum opna Húsasmiðjan og Blómaval stórmagasín hjá okkur á Egilsstöðum, ekki risastór- bara stórmagasín og satt að segja finnst mér það alveg nóg.
Ég veit ekki hvernig hægt er að deila þessum 300.000 sálum jafnt á milli allra þessara molla og smolla.
Alla vega ég er bara þreytt, þreytt, þreytt. Ég var í klipp og stríp í dag. Fyrst sofnaði ég meðan verið var að klippa mig og vaknaði við að ég var spurð álits á verkum hárgreiðslukonunnar. Næst sofnaði ég þegar hún var að þvo mér um hárið og vaknaði við að hún var að fá mig til að reisa höfuðið upp úr vaskinum.
Ég vildi ég gæti verið heima hjá mér í náttfötunum í nokkra daga.

|