31 október 2007

Ljúfar uppskriftir

Ég var að gæða mér á safaríkri og sætri appelsínu.
Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var stelpuskott þá þótti mér rosalega gott að búa til gat á appelsínu, troða inn sykurmola, helst tveimur, kreista appelsínuna og sjúga upp í mig sætan safann. Nammi, namm.
Þetta var áður en nammidagurinn var fundinn upp og maður varð að reyna að verða sér út um sætindi í eldhússkápunum hjá mömmu. Smákökur lágu ekki á lausu, þær voru í innsigluðum járndunkum allan desember og innihaldið var ekki á boðstólum fyrr en um jól og áramót.
En það mátti kitla sykurbragðlaukana með því að fá smá sykur í bolla, stinga rabbarbarastilk eða gúrkubita ofan í og smjatta svo á honum. Smyrja franskbrauð og strá hvítum sykri yfir. Þekja kex með rabbarbarasultu.
Drullumall. Það var í algeru uppáhaldi, haframjöl, kakó, sykur og mjólk hrært saman - þetta var áður en kókómaltið kom til sögunnar.
Það sem maður gat borðað furðulega rétti. En hvað gerði maður ekki til að fá sykurbragð í munninn.

|