30 október 2007

Snjór

Jörðin er alhvít á Héraði.
Í gærkvöldi var ég stödd í ævintýraheimi þegar ég horfði á snjóinn leggjast yfir skóginn og ljósin niður í kvosinni bregða ævintýrabirtu á bæinn. Þetta minnir á glerkúlurnar sem maður hristir og hvít korn líkja eftir snjókomu, þessar sem ég gat setið með þegar ég var krakki og ímyndað mér heila veröld inn í lítilli kúlu.
Kolgríma gægðist varlega út um garðdyrnar í morgun, nusaði af snjónum, steig gætilega út og horfði á þessa nýju veröld sem var ekki þarna í gær þegar hún fór síðast út.
Á svona stundum langar mig að vita hvað þessi litla vera hugsar.
Hún læddist út af pallinum, hvert spor hálf hikandi og þegar hún var komin þangað sem jarðvegur er undir snjónum fór hún að róta af miklum áhuga í snjónum.
En svo þegar ég kallaði á hana, mjálmaði hún og tók stökkið aftur inn í hlýja stofuna, fór að matarhorninu sínu og aðgætti hvort það væri ekki eitthvað gott á boðstólum.

|