23 október 2007

Hvar á ég heima??????

Upp hafa komið vangaveltur um nafnið á götunni minni.
Ég hef oft orðið vör við að fólk heldur að hún heiti Skógarkot, en ég hef nú leiðrétt það, því það er bara húsið mitt sem heitir Skógarkot.
Svo eru aðrar vangaveltur en það er, heitir gatan Bjarkarsel - kennd við eina björk, eða Bjarkasel - kennd við allar bjarkirnar í skóginum? Reyndar verð ég að viðurkenna að samkvæmt minni málvitund er þetta birkiskógur, þ.e. hann er vaxinn þessu lágvaxna íslenska skriðbirki ef svo má segja um okkar yndislega birki. Björk í mínum huga er beinvaxið tré.
En ég vildi auðvitað hafa það á hreinu hvar ég á heima svo ég hringdi á bæjarskrifstofuna og spurði um heimilisfangið mitt. Stúlkan tjáði mér að hún væri vön því að fólk á mínum aldri vissi sjálft hvar það býr, en það var nú bara smá grín.
Hún sagðist myndi kanna málið og hringja aftur sem og hún gerði.
Og samkvæmt skipulagsuppdrættinum þá bý ég í Bjarkaseli. Ég sem var svo ánægð með að búa í Bjarkarseli og merkti sorptunnuna mína þannig. Nú er víst bara að leiðrétta alla dreifingu á vitlausu heimilisfangi og bið ég ykkur kæru vinir og vandamenn að hafa þetta í huga þegar þið sendið mér jólakrotin.
En svo er það kostgangarinn. Hann er svo ánægður með árangurinn í kálkúrnum að hann sagði mér að ef ég kæmi honum niður í X kg fyrir jól myndi hann bjóða mér til Spánar. Nú ég var þá ekkert að tvínóna við hlutina og skellti honum bara á stífan Herbalive-kúr.
Nú er bara spurningin, fer ég til Spánar í boði Magga eður ei?

|