15 október 2007

Draumur

Mig dreymdi skrýtinn draum í nótt.
Eða í morgun, ég vaknaði upp frá honum.
Mér fannst að við Soroptimistasystur vorum að halda einhverja rosalega veislu til fjáröflunar. Veislan var haldin í heimahúsi og þetta var ekki neitt smá hús, rosalega stórt og mjög mörg herbergi.
Mér fannst að ég hefði verið þreytt eftir undirbúninginn og lagði mig í einu herberginu, en eins og öll hin herbergin var það fullt af drasli, en samt fór vel um mig þar, enda var þetta allt mjúkt drasl. Ég lagði gleraugun mín frá mér og sofnaði.
Svo vakna ég og þá er veislan búin og það er verið að ganga frá. Verið er að tína saman alls konar stórar tertur og fínerí og ég var svo leið yfir að hafa ekki hjálpað til í veislunni.
Það eru allir að tala um að ég hefði gert svo mikið að mér veitti ekki af hvíldinni, en mér fannst sjálfri að ég hefði staðið mig mjög illa.
En nú upphófust vandræðin. Ég fann ekki gleraugun mín og gekk herbergi úr herbergi til að leita að þeim. Það var svo roslaga mikið drasl þarna í húsinu enda bjó þarna barnmörg fjölskylda. Það var áberandi hvað það var skemmtilega innréttað fyrir börnin og það var allt fullt af alls konar útivistarfötum, íþróttadóti og leikföngum þannig að það var greinilega mikið líf í þessu húsi.
En ég fann ekki gleraugun mín og það sem var enn verra og gerði drauminn vondan var að mér fannst að Kolgríma hefði verið með mér og ég fann hana ekki. Ég var svo leið yfir að fara án hennar því ég var svo sannfærð um að hún myndi aldrei rata heim.
Skrýtinn draumur.
Ég hef heyrt að hús tákni sálina í manni þannig að samkvæmt því á ég mikið verk óunnið fyrir höndum - ég þarf að fara að vinna virkilega mikið í sjálfri mér. Nota þessa útivistargalla sem hanga alls staðar og ónotuðu íþóttafötin.

|