Við Kolgríma
erum báðar áhættufíklar.
Ég versla í IKEA en kisa nagar rafmagnssnúrur.
Í dag fékk ég sms frá IKEA um að bókaskáparnir væru komnir svo ég gæti haldið áfram að panta inn í púslið mitt, bókaskápar með glerhurðum.
Ég hringdi og bað um samband við þjónustufulltrúa. Fékk samband eftir 20 mínútna bið og sannfærðist um að IKEA væri aðal styrktaraðili Símans.
Þjónustufulltrúinn var ótrúlega glaðleg kona, svona ef maður lítur til þess að það hlýtur að vera mjög taugatrekkjandi að vera þjónustufulltrúi hjá IKEA. Hún þekkti mig, enda er ég búin að hringja svo oft og það geta varla verið nema tveir þjónustufulltrúar hjá fyrirtækinu miðað við þjónustuna, þessi glaðlega og svo þessi Guðrún sem hringdi til mín um daginn til að segja mér að bókaskáparnir sem skuldfærðir höfðu verið á vísakortið mitt væru uppseldir.
Jæja, þetta fer að taka enda og ég get gleymt símanúmerinu hjá IKEA því ég legg ekki í þessa verslun á næstunni.
Um daginn keyti ég voða fínt Sony-heimabíó. Kolgríma var líka mjög hrifin af tækjunum og nagaði í sundur leiðsluna í bassahátalarann.
Maggi lánaði mér einhver forláta heyrnatæki svo ég gæti hlustað á tölvun mína. Í dag uppgötvaði ég að hún Kolgríma var búin að naga þau í sundur. Sama gerði hún við rándýr skype-tól sem Anna systir átti.
Ég fer að hætta að hafa efni á að eiga þessa elsku.
En svona að lokum. Vitið þið um búð á Austurlandi eða á Akureyri sem seldur stórar glaðlegar gólfmottur eins og fást í IKEA?