01 október 2007

Lognið í skóginum ...

... er mikið á ferðinni.
Í kvöld alla vega. Á Reynivöllunum bærðist aldrei hár á höfði, þó svo að það væri brjálað veður á öllu Austurlandi. Það er meiri vindur hér í skóginum, það hefur alla vega tvisvar verið vindur hér síðan ég flutti.
En það gengur illa hjá mér að fá afgreitt það sem ég hef pantað mér úr IKEA. Ég var hálfnuð að festa upp gardínur fyrir heilum mánuði síðan þegar ég uppgötvaði að mig vantaði festingu til að geta sett upp brautina við annan stofugluggann.
Nú, ég hafði símasamband við IKEA því netverslunin þeirra er alveg ótrúlega flókin. Öll pöntunin var auðvitað skuldfærð á vísakortið mitt. Það kom einn hlutur af þessum 10 sem ég pantaði, en ekki gardínufestingin.
Pantaði aftur fyrir rúmri viku og aftur var skuldfært og síðan hefur ekkert til sendingarinnar spurst.
En það er góður vilji að endurgreiða mér þær vörur sem ég ekki fæ.
Ég er svo mikil bjartsýniskona að ég hringdi aftur og pantaði mér bókaskápa með glerhurðum og þetta var skuldfært á vísakortið. Það uppgötvaðist ekki fyrr en sendingin var að fara af stað að skáparnir voru ekki til, en hurðarnar voru til svo þær voru sendar af stað.
Nú vantar mig bara skápa til að festa hurðarnar á og leiðréttingu á þessari vísaskuldfærslu. Ja, nema að IKEA fái aftur þessa skápa og sendi mér þá. Vonandi verð ég þá ekki búin að týna eða brjóta hurðarnar.
Spurning hvort ég fari ekki bara að gefast upp á að panta frá IKEA og haldi mig bara við minn Rúmfatalager.
Það er annars ekkert svo mikill vindur í skóginum, það hvín bara í hálfuppsettum skorsteininum.

|