24 september 2007

Alkomin heim

Komin heim í kotið.
Alltaf er það toppurinn á vel lukkuðu ferðalagi að koma aftur heim - eða það finnst mér.
Þetta er búin að vera mikil ævintýraferð og það er ekki hægt að lýsa henni í einni bloggfærslu. En við Soroptimistasystur hlógum svo mikið í lestinni frá Sorö til Kaupmannahafnar í gær að það var eins og maður væri búinn að vera heilan tíma í magaæfingum hjá Dandý. Upphafið að þessum mikla hlátri var matreiðslubók nokkur sem ég fjárfesti í. Þar voru gamlar danskar uppskriftir, ekki ósvipaðar okkar gömlu sláturuppskriftum. Guðlaug mágkona fór að spyrja innfædda sem sátu skammt frá henni í lestinni um þýðingu á ákveðinu orði sem kom fyrir í bókinni og afleiðingin var sú að Guðlaugu var stranglega bannað að blanda geði við innfædda það sem eftir væri ferðarinnar. Förum ekki nánar út í það.
Ég varð uppalendum mínum held ég bara ekkert til skammar. Á föstudagsmorgun fórum við séra Jóhanna með bænina "Vertu Guð faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allir sind ég hafni."
Þetta hafði góð áhrif og eftir dagsgöngu um stórmagasínin í Köben kom í ljós að ég hafið ekki eytt nema 180 dönskum krónum. Síðan keypti ég mér fyrrgreinda matreiðslubók svo samtals var peningaeyðsla mín í búðum í þessari ferð um 250 danskar krónur. Ég hef bara aldrei notað svona fáar krónur í Danmerkurferð. Ég játa samt að ég keypti mér eitthvað fínerí og nammi í fríhöfninni.
Nú hef ég flogið 10 flugferðir á 18 dögum og varið samtals rúmum 20 tímum um borð í flugvélum. En nú er mál að linni og ég hef sett sjálfa mig í mánaðar farbann. Ég fer ekki lengra en sem nemur 50 km radíus út frá heimi mínu á þessu tímabili. Og rúsínana í pylsuendanum, á morgun flytur Kolgríma mín Högnadóttir i Skógarkotið.

|