Komin heim
Þetta var nú aldeilis ævintýraferð.
Á miðvikudagsmorgun fengum við Ragnheiður far suður á Hornafjörð með Helga Jenssyni sem var hinn kátasti því hann hafði loks fengið úthlutuðu leyfi til að veiða hreindýratarf. Af þeim sökum var hann með báða hundana sína, skotvopn og veiðigallann í bílnum. Þetta hefði nú svo sem verið allt í lagi ef annar hundurinn hefði ekki fundið hjá sér þörf fyrir að troða á töskunni minni. En ég varð að fara á Hótel Höfn og fá að þrífa hana áður en lagt var í Noregsferðina.
Um kvöldið var haldið til Reykjavíkur með flugfélaginu Ernir. Það var eins og maður væri kominn heila öld aftur í tímann. Ég hélt að það væri verið að fylla út handa mér merkispjald á töskuna en þessi litli handritaði miði reyndist vera brottfararspjald.
Þetta var ósköp eitthvað heimilislegt og maður horfði í bakið á flugmanninum á leiðinni til Reykjavíkur.
Ferðin út gekk vel. Við hentum dótinu inn á hótel og drifum okkur í skoðunarferð. Það var mikið um að vera á Karl Jóhann, ég held að allur norski herinn hafi staðið þar í röð, alveg upp að konungshöllinni. Fánar löfðu í logninu og allt var mjög hátíðlegt.
Tilefnið var ekki koma okkar til borgarinnar heldur koma brasilíska forsetans eða forsetisráðherrans.
En dagskráin hjá okkur rann ljúflega í gegn, við heimsóttum dómhúsið, einhverja stóra lögmannsstofu og svo Kaupthing.
Kaupþingsmenn tóku á móti okkur með drykkjum, snittum og flottum ávaxtabökkum. Ég hvarf ofan í ávextina.
Það var stingandi að sjá hvað eiturlyfjaneysla og vændi fer fram fyrir opnum tjöldum í Osló, en það segir mér ekki annað en að samfélagið annað hvort líti framhjá þessu eða samþykki það. Það var dapurlegt að horfa á ungt fólk að sprauta sig, bara úti á götu á Karl Jóhann og ungar sómalaskar stúlkur að falbjóð sig. Ég hefði samt ekki fattað að þetta væru vændiskonur nema af því að karlkyns ferðafélagar bentu á að svo var og við horfðum á þar sem fram fóru samningaviðræður og fram voru taldir einhverjir peningar áður en stúlkan gekk burtu með karli nokkrum sem var vægast sagt ógeðslegur.
Svo var mikið af alls konar ógæfufólki og betlurum sem óneitanlega kom á óvart í höfuðborg þessa ríka lands. Þetta var í það minnst mun meira áberandi en í Kaupmannahöfn.
Ég get samt vel hugsað mér að heimsækja Osló aftur og á örugglega eftir að gera það.