29 ágúst 2007

Iðnaðarmenn

Iðnaðarmenn eru sér þjóðflokkur.
Ég veit um iðnaðarmenn í Reykjavík sem fengu borgað fyrir verk í maí sl. og eftir ítrekaðar kvartanir verkkaupa var verkið loks unnið núna um miðjan ágúst.
Svo les maður alls konar hryllingssögur af fólki sem lendir í svikulum klóm iðnaðarmanna.
Hér fyrir austan ganga hlutirnir betur. Að vísu hefur þetta gengið upp og ofan í sumar með Skógarkotið af því að undirverktakar hafa ekki mætt á staðinn. En þessar elskur hér á Egilsstöðum fá 10+ í einkunn.
Í gær þurfti ég að fara í Mylluna og fá smíðaðan járnfót undir borðstofuljósið mitt því loftið hallar um 22° (þetta er ekki leyndur galli, húsið er teiknað svona). Það tók Sigga Clausen 2 tíma að búa til þennan fína ljósafót handa mér.
Ég var að vandræðast með að tengja þvottavélina og þegar ég ætlaði að skoða hvernig ætti að gera þetta þá var bara búið að tengja hana þeygjandi og hljóðalaust. Bjössi yfirsmiður átti leið framhjá henni og bara kviss bang, vélin tengd.
Það er svolítið skrýtið að vera að flytja í götu sem er í smíðum, ég hef aldrei áður gert það. Hins vegar er það sárabót að ég hef alveg helling af flottum og vöðvastæltum körlum til að horfa á. Ég veit ekki hvaðan þeir eru, sennilega eru þeir flestir frá Póllandi.
En ég er eiginlega komin á þá skoðun að Markús smiður og Kristján rafvirki hafi fylgt húsinu því þeir eru enn að dunda í Skógarkoti.
Það er fínn kaupbætir með góðu húsi.

|