19 ágúst 2007

Lystitúr og list

Þórhallur Þorsteins bauð í lystitúr í gær.
Ferðinni var heitið í Víkur sunnan Borgarfjarðar. Ég sagði honum að ég væri pestargemsi en ef hann nennti að hafa svoleiðis ferðafélaga þá væri ég til.
Við komum í Breiðuvík og það var skýjað niður í miðjar fjallshlíðar. Þegar niður að skála kom sagði Þórhallur að nú ætti ég að hjálpa honum að bera eldiviðarpokana úr bílnum. Ég bað hann vel að lifa og fór í berjamó. Ég tíndi aðalbláber handa Þórhalli en hafði krækiberin fyrir sjálfa mig.
Að lokinni kaffidrykkju og spjalli við skálagesti var haldið yfir til Húsavíkur og þá var nú heldur betur farið að létta til.
Víkur eru leikgarður þokunnar og það er óborganlegt að fylgjasta með henni koma inn eins og ormur eða slæða, vefja sig um fjöllin en topparnir standa upp úr. Hvítserkurinn sýndi öll sín fallegu litbrigði í kvöldsólinni en þokan skreið við fjallsræturnar.
Í dag var Eivör Pálsdóttir með tónleika í Hallormsstaðaskógi. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim því Eivör er engri lík, sannkallað náttúruundur og skógurinn, baðaður sól, var fallegt svið sem hæfði þessari einstöku söngkonu.

|