Af húsnæðsmálum
Það er mikið að gerast í húsnæðismálum okkar mæðgna.
Örverpið og unnusti hennar fá afhenta fallega íbúð í dag. Hún er lengst upp í sveit í Reykjavík, í Grafarvoginum. Það verður gott fyrir svona landsbyggðarkonu eins og mig að fá að dvelja þar og horfa á Esjuna, geta labbað niður í eina af þessum fáu náttúrlegu fjörum sem Reykvíkingar eiga eftir og svei mér ef það er ekki bara holt þarna rétt hjá þar sem er smá berjalyng.
Ég óska krökkunum til hamingju með húsnæðið.
Frumburðurinn og eiginmaður hennar leita logandi ljósi að huggulegri íbúð í 101 Reykjavík, enda eru þau óttalegar miðbæjarrottur. Þau eru komin með augastað á einni og ég verð að segja að það verður mjög þægilegt fyrir svona gamla dreifbýliskonu eins og mig að geta valið um gistingu í 101 og í hinu póstnúmerinu sem ég man ekki hvað er, þarna upp í Reykjavíkursveitinni.
Sjálf er ég enn á vergangi. Það seinkaði afhendingu á Skógarkotinu en ég er núna komin með niðurneglda dagsetningu, 25. ágúst kl. 13.00. Þá mæti ég og slæ eign á kotið með öllu sem í því er, þannig að ef iðnaðarmennirnir eru enn að vinna, þá lít ég svo á að þeir fylgi með. Gott að ég lagði áherslu á að bílskúrinn yrði svona fínn, ég get hýst þá þar.