Í Reykjavik
Þá er ég í borginni.
Anna Guðný er flogin austur á Fljótsdalshérað, en við Guðlaug og Guðný Rós höldum áfram ferðalaginu. Við erum að skoða vini og vandmenni borginni og svona að athuga hvernig verslun og viðskipti ganga í höfuðstaðnum.
Brúðkaupið fór vel fram. Við fundum þennan sumarbústað og eigum skilið medalíu fyrir að hafa komst á leiðarenda. Brúðurin og brúðguminn játuðust hvort öðru í fallegum lundi í sólskininu og svo var veisla og dansiball.
Það fréttnæmasta af dansgólfinu er að mér tókst að fá Gissur bróðir til að koma út á dansgólfið, eða öllu heldur dansgrasflötina og þetta þótti svo merkilegt að það voru teknar af okkur myndir. Ég dansaði síðast við Gissur á þorrablóti fyrir nokkrum árum, en eftirminnanlegasti dansinn okkar var á áramótadansleik 1974 í Valaskjálf þegar Gissur fékk sér smávegis í tána og varð svona líka mikill fjörkálfur að hann bara dansaði með mig hring eftir hring. En þetta hefur farið með hann því síðan hefur hvorki séð á honum vín né gripið hann mikil danslöngun.
En aftur að brúðkaupinu. Sumir tjölduðu og skemmtu sér fram á rauða nótt. En þar sem mér tókst ekki að finna stóran og feitan karl sem gæfi frá sér góðan hita þá nennti ég ekki að fara að skjálfa ein í tjaldi og fór bara til Þóreyjar frænku í Hveragerði og gisti þar.