16 júlí 2007

Síðasti áfanginn...

... vonandi verður hann ekki drjúgur.
Nú er ég sem sagt flutt aftur í Egilsstaði og lokaáfangi vergöngunnar er hafinn. Ég á að fá afhent eftir 16 daga og ég er gersamlega að fara á límingunum af tilhlökkun.
Ég hef reynt að gera systkinum mínum hér fyrir austan jafn hátt undir höfði, ég er búin að búa hjá bræðrum mínum og nú er ég komin til hennar systur minnar.
Kolgríma er í fóstri á Faxatröðinni. Verst að ég verð fram að jólum að vinna traust hennar ef ég þá fæ hana aftur því Þórhallur og Guðlaug eru orðin ástfangin af kisu og hún af þeim.
Þórhallur hringdi til mín í gær, ég hélt að hann ætti áríðandi erindi, en nei, nei, hann vildi bara svona heyra í mér hljóðið og svo fór símtalið allt í að segja mér hvað Kolgríma er góð og falleg og skemmtileg og frábær. Eins og ég hafi ekki vitað það.
Um daginn sagði Guðlaug að ég skyldi ekkert taka kisu til mín fyrr en ég væri búin að koma mér VEL fyrir - það tekur aðvitað tíma.
Ég yrði ekki hissa þótt næst yrði mér sagt að það lægi ekkert á að taka kisu fyrr en um jól, eða næsta vor eða bara hvort ég vilji ekki bara fá mér annan kött.
Um helgina fórum við nokkrar ólofaðar kvensur í skemmtiferð til Akureyrar. Það var ekkert smá skemmtileg ferð. Ein lenti á deiti í Hagkaup þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla, en við hinar urðum auðvitað pínu abbó.
Svo þegar hún var að segja okkur frá ævintýrinu á leiðinni út úr bænum þá aðeins gleymdi ég mér í spenningnum, steig aðeins of fast á bensínið og löggan var mætt með það sama. Þar fuku 15.000 kr., en það gerir ekkert því ég græddi svo mikið á síðust Akureyrarferð.
Hins vegar þótti mér leitt að sjá hvað löggan á Akureyri er með fornaldarlegar græjur í bílum sínum. Þetta er eitthvað dót frá landnámsöld, fjaðurstafir og þess háttar. Ég gat ekki einu sinni dregið upp kortið og greitt á staðnum því svoleiðis tækni er óþekkt þarna norður í landi.
Hvernig væri nú að hann Björn færi í ríkiskassann og keypti eitthvað nútímadót handa Akureyringum í staðinn fyrir að vera alltaf að láta sig dreyma um her af ýmsum stærðum og gerðum.

|