Hamskipti
Í dag hafði Skógarkot hamskipti.
Húsið var í gær bara eins og hvert annað ómálað steinhús, en í dag komu nokkrir vaskir karlar og einn svartur hundur og hófu að sprauta einhverju hvítu efni, sem mín vegna getur hafa verið galdra grip, á húsið og svo var puðrað og skvett á húsið möluðu grjóti, einhverjum hvítum steinum og hrafntinnu. Þetta er samt ekki hrafntinna úr Hrafntinnuskeri, þetta er einhver innfluttur mulningur.
Hundurinn var kominn upp á stillansa, en ég veit ekki hvort hann var á launaskrá, ég sá hann ekki gera neitt. Þetta var fallegur Labrador hundur.
Svo er komið eitt heljarinnar grjót upp úr grunni í götunni og smiðirnir ætla að færa mér það ef kraninn ræður við flutninginn. En þá er ég líka hætt þessu steinasuði, enda er ég þegar komin með fjóra hnullunga í garðinn.