12 júlí 2007

Af dýrum og furðudýrum

Í morgun sá ég furðulega sjón.
Eða mér fannst hún furðuleg til að byrja með. Ég var að aka út Hallormsstaðaskóg þegar ég sá þúst úti á miðju Fljóti. Þessi þúst er ekki vön að vera þarna og ég hugsaði með mér að nú bæri vel í veiði, þetta væri greinilega Lagarfljótsormurinn sjálfur að stinga hausnum upp úr í morgunkyrrðinni.
Ég hægði á mér, missti sjónar á þústinni þegar tréin báru á milli, en svo sá ég hana aftur. Æi, verst að ég var ekki með myndavél.
Þegar ég kom að Hafursá, þá endaði ævintýrið mitt. Þar niður í fjörunni var bíll frá Vatnamælingum. Jæja, en það var gaman að hverfa aðeins inn í heim ævintýranna.
Svo kom að því að fara með Kolgrímu og Garp til dýralækis. Þau voru ekki mjög hrifin af því að fara í bíltúr, vældu og skældu. Og þegar Kolgríma var bólusett þá tókst nú ekki betur til í fyrstu tilraun en svo að það var stungið út í gegn og bóluefnið lak niður feldinn hennar.
En þetta gekk allt upp að lokum og nú þurfa þau vonandi ekkert að hitta dýralækninn fyrr en á sama tíma að ári.

|