Á löglegum hraða
Nú er ég komin suður á land.
Ég er stödd í Hveragerði en hingað er ég nú komin eftir 12 tíma akstur frá Egilsstöðum. Ég hef vandað mig í allan dag að aka á löglegum hraða.
Ég missti mig einu sinni á ofurlítið of mikinn hraða en var fljót að bremsa mig niður. Eini löggubíllinn sem varð á vegi mínum birtist á Hellu og það hvarflaði að mér þar sem hann stóð í næsta bílastæði við mig upp við Olís-sjoppuna að fara út og benda þeim á að þeir hefðu átt að fara með bílinn í skoðun í síðasta mánuði.
En maður er svo sem ekkert að skipta sér af í öðrum sóknum.
Við höfum skemmt okkur mjög vel í dag, kvensurnar fjórar sem lögðum af stað frá Egilsstöðum í bítið klukkan hálf ellefu í morgun. Fyrsta nestisstoppið var í Berufirðinum og svo var bara stoppað alls staðar og hvergi.
Í sjoppunni í Freysnes keyptum við okkur mjög glaðlega hatta sem passa akkúrat á bæjarhátíðinni heima. Við erum að spá í hvort við eigum að mæta með hattana okkar í brúðkaupið á morgun. Við myndum náttúrulega stela senunni. Anna Guðný keypti bleikan kábojhatt með diskóljósum en ég fékk fjólubleika húfu eða hatt sem fellur að höfðinu og er eins og úr gæruskinni, mjög lífleg. Svoldið eins og loðin sundhetta með smá börðum.
Eftirminnanlegasta stund dagsins er samt þegar við renndum upp að Núpsstað og heilsuðum upp á frænda okkar Filippus Hannesson, 98 ára gamlan ungling. Hann knúsaði okkur allar bæði þegar við komum og þegar við kvöddum hann.
Við erum alla vega búnar að finna þjóðveg 26, sem ku liggja upp í brúðkaupssveitina. Nú verður spennandi að vita hvort við komumst á leiðarenda á morgun.