14 ágúst 2007

Regn, regn, regn

Er þetta ekki bara að verða gott.
Ég bað um smá regn um daginn til að Grislingur skilaði sér heim. Hann er kominn í leitirnar svo nú má alvega hætta að rigna.
Það er svo haustlegt og búið að vera núna síðustu daga. Lemjandi riging og skýin hanga alveg niður að húsþökum.
Í gær brá ég mér upp að Ufsarstíflu á Eyjabökkum til að heilsa upp á hana systur mína. Þar var auðvitað skítaveður og það litla sem ég sá af Snæfellinu bar með sér að það hafði snjóað nóttina áður alveg niður fyrir miðjar hlíðar.
Ekki veit ég hvað kom yfir mig þarna upp á fjöllum en það heltist yfir mig þvílík þreyta og ég skreið upp í rúm og steinsvaf þar til að kominn var tími til að halda heim á leið.
Í gærkvöldi var ég svo komin með hálsbólgu og kvef. Ég er farin að halda að það eigi að gera út af við mig í sumar. Sumarfríið mitt er búið, ég fer að vinna á fimmtudag. Ég sem ætlaði að nota það til að koma mér fyrir í Skógarkoti.
Jæja, það þýðir víst lítið að grenja, en ég vildi gjarnan fá skárra veður takk. Alla vega á meðan á bæjarhátiðinni okkar stendur. Spurning í hvaða liði svona vergöngukerling á heima og hvert á ég að mæta í götugrill???

|