Langlífi
Þá veit ég það.
Ég hef alltaf haldið að langlífi réðist að stórum hluta af einhverjum genatengdum líffræðilegum þáttum.
Kerlingarnar í móðurættinni minni verða allra kerlinga elstar.
Langamma mín, Grasa-Þórunn, komst á tíræðisaldur. Ég hef alltaf haft það bak við eyrað að hún ku hafa drukkið svart kaffi frá morgni til kvölds. Þess vegna tamdi ég mér það fyrir 20 árum að drekka bara svart kaffi.
En svo skýrir Mogginn frá því að einhverjar rannsóknir í útlandinu sýni að langlífi kvenna ráðist af því hversu eftirlátar þær eru eiginmönnum sínum.
Jæja, þá get ég slakað á í kaffidrykkjunni. Hún langamma fussaði og sveiaði, klippti hár sitt stutt og sprangaði um í slorugum sjógallanum þegar hann langafi kom alla leiðina austan úr Skaftafellssýslu suður á Reykjanes að hitta langalangafa til að falast eftir henni langömmu.
Þarna liggur hundurinn grafinn. Ég verð að temja mér að vera ákveðin ef ske kynni að karl ræki á fjörur mínar.