18 september 2007

Haust á Héraði

Ósköp sem það er gott að búa á Héraði.
Ég kom í Húsasmiðjuna í dag og svei mér þá, þær urðu bara kátar að sjá mig stelpurnar. Ég held næstum að þær hafi verið farnar að sakna mín.
Þar sem ég bý hér inni í Selskóginum get ég horft út allt Hérað, út á Kollumúla og á haustlitina í skóginum.
Ég vil hins vegar ekkert vera mikið að góna þangað núna því það stendur maður fyrir neðan næsta hús utan við mitt hús og er að pissa í góða veðrinu.
Svo ég vil bara horfa inn eftir, inn í Egilsstaðaskóg og á fjöllin í gamla Vallahreppi. Skógurinn er mjög haustfagur og það vill svo vel til að ég hef gengið á nokkra fjallatoppa sem ég sé út um gluggann minn. Ég nefnilega hét mér því þegar ég átti heima á Strönd að ganga á öll fjöll sem ég sæi út um stofugluggann, sem betur fer sé ég nokkur af sömu fjöllum úr stofuglugganum í Skógarkoti og ég sá á Strönd. Höttinn, Sandfellið og Snæfellið. Ég verð samt að taka fram gönguskóna á næstu árum og feta nýjar slóðir. Úthéraðsfjöllin eru alveg eftir hjá mér.
Jæja, maðurinn er hættur að pissa svo ég get farið að dáðst að Kollumúlanum.

|