Laugardagur í Selskógi
Veðrið er yndislegt í dag.
Við Nína erum búnar að fá okkur gönguferð í skóginum og fundum stíg sem liggur akkúrat inn í mína götu. Það er nú samt á skipulagsuppdrættinum manngerður göngustígur, þessi sem við fundum var bara náttúrulegur, gömul kindagata eða eitthvað í þeim dúr.
Afrek dagsins er hins vegar að ég er búin að koma upp gardínum fyrir báða stofugluggana, en ég var búin að vera strand í heilan mánuð með seinni gluggann.
Það er ekki fyrir fólk með skerta starfsorku að kaupa þetta dót frá IKEA. Ég er bara þokkalega hraust ennþá en ég er samt krambúleruð eftir þessi slagsmál við umbúðirnar utan um gardínurnar. Þetta minnir á allar þessar nýmóðins öryggislæsingar og -lok, ég keypti spreybrúsa um daginn og hann var svo barnaöruggur að það var ekki fyrr en eftir mikið bölv og mikið puð sem mér, miðaldra konunni,tókst að opna hann.Þá var ég líka búin að gleyma til hvers ég keypti spreyið. Jú alveg rétt, ég þrufti að laga IKEA náttborðið sem ég braut pínulítið þegar ég var að setja það saman.
Eftir allt þetta vesen með IKEA umbúðir undanfarið hef ég ákveðið að sækja um hjá IKEA við að hanna og framleiða umbúðir. Þær verða áfram svona leiðinlegar eins og þær eru í dag og maður þarf eftir sem áður sveðjur og klaufhamra til að ná varningnum úr pökkunum. En nýjungarnar verða að auk þess sem hinn klassíski sexkantur fylgir, þá ætla ég að láta eftirfarandi fylgja: Tvær róandi töflur, 4 verkjatöflur, plástur og áfallahjálp. Svo í neyðartilfellum verður hægt að fá tékknesku klaufabárðana til aðstoðar ef kaupandinn ræður alls ekki við að ná dótinu úr pakkanum eða að setja það saman.