12 október 2007

Plómur

Einu sinni fyrir langa, langa löngu var ég lítil stelpa.
Þá átti ég heima í Kópavoginum og það er svo langt síðan saga þessi gerðist að það var ekki einu sinni komin sundlaug í Kópavogi. Þessi sundlaug okkar sem svo komst upp úr jörðu og í dag yrði skilgreind sem fjörurra manna baðkar. En hvað um það, fyrir daga Kópavogslaugarinnar vorum við systur sendar á sundnámskeið í Austurbæjarskólann, í enn minni sundlaug en þá var á teikniborðinu í Kópavoginum.
Við tókum Hafnarfjarðarstrætó sem stoppaði við Derry Queen sjoppuna á Kópavogshálsinum, fórum út við gamla Kennó og löbbuðum svo eftir Barónsstígnum að Austurbæjarskólanum þar sem sundkennslan fór fram.
Við höfðum með okkur aura í strætó, það var ekki búið að finna upp strætómiðana, og svo fengum við alltaf ofurlítið aukaskotsilfur sem dugði til þess að við gátum hvor um sig keypt eina plómu í verslun sem var þarna á horni Barónsstígs og einhverrar þvergötu, mig minnir að búðin hafi heitið Árnes.
Það var mikil spenna að vita hvort til væru plómur og það var unaður að gæða sér á þessum undraávexti. Ef svo illa vildi til að það voru ekki til plómur voru keypt tvö Bazogatyggjó. Eitt handa mér og eitt handa Önnu Guðnýju.
Það voru alltaf vonbrigði ef ekki voru til plómur og einhvern veginn hefur mér aldrei fundist nein búð selja góðar plómur nema þessi búð sem fyrir margt löngu var í kjallara þarna skammt frá Austurbæjarskólanum.
Ég veit ekki hvað ég hef borðað margar plómur um ævina og látið mig dreyma um að einn daginn ætti ég eftir að rekast á eins unaðslega góða plómu sem þessar draumkenndu plómur bernskunnar.
Og viti menn, sumir draumar rætast. Núna í haust hafa fengist í Bónus plómur sem ég er viss um að koma af sama tré og plómurnar forðum.
Þvílíkur unaður og munaður.

|