Krem
Hvernig rötuðu öll þessi krem inn í líf mitt?
Ég var að stíga upp úr kvöldfreyðibaðinu og fálmaði eftir næturkreminu mínu inn í baðskáp. Kreminu sem kona á mínum aldri þarf að bera á andlit sitt fyrir svefninn svo hún vakni ekki gömul og skorpin kona.
Svo í fyrramálið þegar ég fer á fætur og er búin að fá morgunþvottinn þá ber ég á mig dagkrem sem hver kona á mínum aldri þarf að bera á andlit sitt svo húðin þoli allt álagið og alla streituna og verði ekki komin með öll merki hrörnunar þegar næturkreminu er skellt í andlitið.
Andlitskrem, augnkrem, handáburður og body-lotion. Allt ómissandi í lífi miðaldra konu, svo ekki sé talað um fótakremin öll. Já og tannkremin en þau eru annars eðlis.
Ég fór að telja kremkrukkurnar, -dósirnar og -túpurnar. Þetta eru hátt í 30 ílát fyrir utan fótakremin sem eru hátt í 10 túpur.
Er ekki í lagi með mig? Og ilmvötnin, maður minn. Segi ekki hvað þau eru mörg, en þrjú þeirra eru óopnuð.
Ég er búin að setja sjálfa mig í viðskiptabann hvað kremvarning varðar.
Ég man þá daga þegar ég þóttist bara vel sett ef ég átti eina dós eða túpu af handáburði á baðherberginu. Hvað gerðist eiginlega?
Ég skora á ykkur stelpur að fara inn á bað og telja hvað þið eigið margar gerðir af kremum og öðrum ómissandi áburði, ég trúi því ekki að ég sé eina konan sem sit í kremsúpunni.