Fartölva
Ég er búin að gefast upp á þessari tölvu minni.
Upphaflega var þetta fartölva í eigu Önnu Berglindar dóttur minnar. Svo gerðist tölvan forngripur og þá var mömmu gömlu gefinn gripurinn. Tölvugarmurinn er í rauninni búinn að reynast mér vel, en nú er hún eiginlega komin í öndunarvél, ef svo má segja.
Batteríið er búið að vera ónýtt frá þvi að gripurinn kom inn á heimilið og hefur tölvan þurft að vera tengd með snúru í rafmagn. Lengi vel var hægt að vera þráðlaust á netinu, en vergangan í sumar reið tölvunni að fullu svo nú er hún líka tengd símasnúru.
Svo hefur hún verið misgæf og er farin að þjást af tölvuelliglöpum. Svona eins konar tölvualtsheimer. Ég kemst inn á síður en með "error on page".
Í dag fékk ég glænýja, netta og fína Toshiba-tölvu. Hún er svo lítil og nett að ég get næstum haft hana í veskinu mínu. Hún er 1,9 kg og svo er batteríið ca 400 gr.
Tölvu-Tóta kom og hafði vélina með sér heim til að troða forritunum mínum í hana fyrir mig því það er með tölvur eins og bíla, ég hef ekki hundsvit á þeim og hef engan áhuga á að vita hvernig þessi tæki vinna vinnuna sína, bara að þau virki.