21 október 2007

Kettir eru betri en hundar

Það segir Nína frá Ghana.
Hún ætlar að koma í heimsókn í dag í Skógarkot með bróður mínum og mágkonu, en hún er skiptinemi hjá þeim. Hún hefur alist upp við að borða hunda og ketti. En svona er þetta, sinn er siður í landi hverju og hún Nína fer nú varla að borða íslenskar kisur þótt henni finnist kettir vera lostæti. En mér kæmi ekki á óvart að hún eigi eftir að sleikja út um þegar hún sér Kolgrímu því hún er hraustleg kisa.
Allur gærdagurinn fór í fundarsetu með systkinum mínum. Við vorum að ræða um framtíð Runu og Klakks. Runar er hús á Borgarfirði eystra en Klakkur er færeyskur bátur. Þetta eru þær jarðnesku eigur hans pápa okkar sem honum voru kærastar og honum var í mun að við systkinin ættum saman eftir hans dag.
Runa verður 30 ára á næsta ári svo það verður að gera eitthvað skemmtilegt af því tilefni.
Um kvöldið fórum við öll saman út að borða með mömmu og mágkonum mínum, á Hótel Öldu á Seyðisfirði. Tígrisrækjur í mangósósu í forrétt - ógeðslega gott, besti rétturinn. Lamb með lagskiptum kartöflum og svo frönsk súkkulaðikaka með ís og kaffi.
Svo endaði þetta huggulega kvöld með tónleikum með Herði Torfa sem var frábær að vanda.
Ps. þetta er fyrsta bloggfærslan sem ég rita á glænýju, ponsulitlu Toshiba-fartölvuna mína. Þessi tölva fellur undir máltækið margur er knár þótt hann sé smár því þetta er þrælöflugur gripur sem Tölvu-Tóta tók út fyrir mig og gaf mér grænt ljós á að kaupa.

|